Leipzig vann í kvöld ótrúlegan 3:2-sigur á Borussia Mönchengladbach í þýsku 1. deildinni í fótbolta. Gladbach komst í 2:0 en Leipzig neitaði að gefast upp.
Jonas Hoffmann kom Gladbach yfir strax á 6. mínútu með marki úr víti og Marcus Thuram tvöfaldaði forskotið á 19. mínútu og var staðan í hálfleik 2:0.
Christopher Nkunku minnkaði muninn fyrir Leipzig á 57. mínútu, áður en Yussuf Poulsen jafnaði á 66. mínútu. Leipzig var ekki hætt því varamaðurinn Alexander Sørloth skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og þar við sat.
Leipzig er í öðru sæti með 50 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Bayern München. Gladbach er í áttunda sæti með 33 stig.