Knattspyrnukonan Lára Kristín Pedersen spilaði sinn fyrsta leik með ítalska A-deildarfélaginu Napoli í dag er liðið mætti Sassuolo.
Lára gekk í raðir Napoli fyrr í mánuðinum og er nú önnur tveggja Íslendinga í liðinu en Guðný Árnadóttir samdi við félagið í byrjun árs, er þar að láni frá AC Milan. Þær voru báðar í byrjunarliðinu en Lára var tekin af velli eftir rúmlega klukkutíma leik og Guðný spilaði allan tímann.
Napoli tapaði leiknum 1:0 og er í nokkrum vandræðum í efstu deildinni. Liðið er í 11. og næstsíðasta sæti deildarinnar með fjögur stig eftir 14 leiki.
Miðjukonan, sem er 26 ára gömul, er uppalin hjá Aftureldingu í Mosfellsbæ en hún lék með KR í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Lára á að baki 167 leiki í efstu deild með Aftureldingu, Stjörnunni, Þór/KA og KR þar sem hún hefur skorað fimmtán mörk. Þá á hún að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland.