Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskonan unga í knattspyrnu, fer væntanlega að spila fljótlega með þýska stórveldinu Bayern München sem fékk hana í sínar raðir í janúarmánuði.
Karólína kom frá Breiðabliki og er að jafna sig af meiðslum í hné sem hún hefur glímt við í vetur. Hún sagði við Morgunblaðið í janúar að stefnan væri sú að byrja að spila með Bayern í mars og nú á liðið framundan fimm leiki á aðeins fimmtán dögum.
Í dag birti Bayern myndir af Karólínu í búningi félagsins á samfélagsmiðlum sínum með þeim orðum að hann færi henni einstaklega vel.
Das #FCBayern-Trikot steht dir hervorragend, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir! 🇮🇸#MiaSanMia @karolinalea39 🔴⚪️ pic.twitter.com/q7U2LYJGGN
— FC Bayern Frauen (@FCBfrauen) March 1, 2021
Bayern spilar tvo leiki við Kazygurt frá Kasakstan í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar 4. og 10. mars, mætir Freiburg og Essen í þýsku 1. deildinni 7. og 14. mars og leikur 19. mars við Hoffenheim í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar.
Bayern er með fimm stiga forskot á Wolfsburg í baráttunni um þýska meistaratitilinn þegar átta umferðum er ólokið en félagið hefur unnið alla fjórtán leiki sína í 1. deildinni í vetur.