Knattspyrnumaðurinn Böðvar Böðvarsson hefur yfirgefið herbúðir pólska úrvalsdeildarfélagsins Jagiellonia Bialystok. Hann greindi sjálfur frá því á Instagram-aðgangi sínum í dag.
Samningur Böðvars við Jagiellonia átti að renna út í lok júní á þessu ári en nú hefur Böðvar fengið honum rift. Hann er því laus allra mála og getur farið að leita sér að nýju liði.
„Ég er þakklátur fyrir árin þrjú í Jagiellonia og fyrir allt það góða fólk sem ég hef kynnst á tíma mínum hér. Ég óska öllum sem tengjast félaginu og Bialystok-borg alls hins besta. Þakka ykkur kærlega fyrir,“ skrifaði Böðvar á Instagram-aðgangi sínum.
Böðvar hafði verið fastamaður í liði Jagiellonia fyrri hluta yfirstandandi tímabils en hefur ekkert komið við sögu á þessu ári.
Fótbolti.net kveðst hafa heimildir fyrir því að áhugi sé á Böðvari erlendis frá og því sé líklegra að hann spili áfram erlendis í stað þess að koma aftur til Íslands, en hann fór frá FH til Jagiellonia árið 2018.