Slóvakíski miðjumaðurinn Marek Hamsik er á leiðinni til sænska knattspyrnuliðsins Gautaborgar, þar sem hann mun hitta fyrir íslenska landsliðsframherjann Kolbein Sigþórsson, sem samdi við félagið í byrjun árs.
SportExpressen greindi frá þessum athyglisverðu tíðindum í morgun. Þar segir að Hamsik sé búinn að rifta samning sínum við Dalian Professional í kínversku ofurdeildinni og muni fljúga til Svíþjóðar um helgina og skrifa undir samning við sænska úrvalsdeildarfélagið.
Hamsik, sem er 33 ára, er sannkölluð goðsögn hjá ítalska A-deildarfélaginu Napoli, þar sem hann er leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins með 520 leiki og næstmarkahæstur, með 121 mark, yfir 13 ára tímabil.