Esbjerg hafði betur gegn Fremad Amager á heimavelli í dönsku B-deildinni í fótbolta í dag, 2:0.
Andri Rúnar Bjarnason byrjaði á varamannabekk Esbjerg en hann kom liðinu á bragðið á 70. mínútu, stundarfjórðungi eftir að hann kom inn á sem varamaður. Markið var það þriðja sem Andri skorar á leiktíðinni.
Kjartan Henry Finnbogason lék allan leikinn með Esbjerg, sem Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfar. Esbjerg er í öðru sæti deildarinnar með 45 stig, fimm stigum á eftir toppliði Viborg.