Knattspyrnukonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fékk sannkallaða óskabyrjun með félagsliði sínu Bayern München á dögunum.
Hún lék sinn fyrsta leik fyrir þýska stórveldið á fimmtudaginn þegar hún kom inn á sem varamaður á 65. mínútu gegn Kazygurt í Kasakstan í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Karólína var búin að vera inni á vellinum í þrjár mínútur þegar hún skoraði fimmta mark Bæjara en leiknum lauk með 6:1-sigri Bayern München.
Hún á að baki 78 leiki í efstu deild með FH og Breiðabliki og þá á hún að baki fjóra A-landsleiki þar sem hún hefur skorað eitt mark.
Karólína var að jafna sig eftir aðgerð á hné þegar hún gekk til liðs við þýska félagið frá Breiðabliki í janúar á þessu ári en hún hefur æft af fullum krafti með liðinu undanfarnar vikur.
„Þetta gat ekki byrjað betur,“ sagði Karólína í samtali við Morgunblaðið.
„Samkeppnin um stöður í liðinu er svakaleg og maður veit í raun ekki einu sinni hvort maður sé í hópi fyrr en daginn fyrir leik.
Ég er þess vegna gríðarlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri með liðinu í Kasakstan og núna er bara að byggja ofan á þetta. Það er mikilvægt að halda áfram á sömu braut og reyna að fá mínútur með liðinu,“ bætti hún við.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.