Grannarnir í Atlético Madrid og Real Madrid skiptu með sér stigunum er þeir mættust á heimavelli Atlético í toppslag í spænsku 1. deildinni í fótbolta í dag en lokatölur urðu 1:1.
Luis Suárez kom Atlético yfir strax á 15. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0. Þannig var hún allt fram að 88. mínútu þegar Karim Benzema jafnaði fyrir Real og þar við sat.
Atlético Madrid er í toppsætinu með 59 stig, Barcelona í öðru með 56 stig og Real í þriðja með 54 stig, en Atlético á leik til góða.