Juventus vann góðan 3:1 endurkomusigur gegn Lazio í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu karla í gærkvöldi. Spænski framherjinn Álvaro Morata var í aðalhlutverki og skoraði tvö mörk og lagði upp annað.
Argentínumaðurinn Joaquín Correa kom gestunum í Lazio á bragðið á 14. mínútu leiksins áður en Adrien Rabiot jafnaði metin skömmu fyrir hálfleik eftir sendingu frá Morata.
Í síðari hálfleik gerði Morata svo sjálfur út um leikinn með tveimur mörkum á þremur mínútum. Hann kom Juventus yfir á 57. mínútu eftir undirbúning Federico Chiesa og skoraði svo aftur á 60. mínútu.
Ítalíumeistarar Juventus eru sem fyrr í þriðja sætinu í deildinni en eru núna aðeins einu stigi á eftir AC Milan, sem er í öðru sætinu, eftir að hafa verið víðsfjarri liðinu fyrr á tímabilinu. Enn eru þó sjö stig í topplið Inter Mílanó.