Þar sem Celtic mistókst að vinna Dundee United á heimavelli í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag er ljóst að Rangers er skoskur meistari.
Celtic er meistari síðustu níu ára, en undir stjórn Steven Gerrard hefur Rangers spilað gríðarlega vel og er liðið í toppsætinu með 88 stig eftir 32 leiki. Celtic er í öðru sæti með 68 stig.
Afrekið hjá Gerrard er sérstaklega merkilegt í ljósi þess að liðið var dæmt niður í D-deild árið 2012. Liðið fór upp um deild þrjú ár í röð og hefur leikið í efstu deild frá árinu 2016. Er meistaratitillinn sá fyrsti síðan liðið fór aftur upp í úrvalsdeildina.