Ragnar Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu lék í dag langþráðan leik með sínu nýja félagi í Úkraínu, Rukh Lviv.
Landsliðsmiðvörðurinn reyndi lék síðast deildaleik 27. september, með FC København gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni, en síðan eru liðnir 162 dagar.
Ragnar fékk ekki fleiri tækifæri með danska liðinu en lék hins vegar þrjá landsleiki fyrir Íslands hönd í október og nóvember, gegn Rúmeníu, Danmörku og Ungverjalandi. Frá leiknum við Ungverja þann 12. nóvember eru liðnir 116 dagar.
Ragnar fór beint í byrjunarlið Rukh Lviv í dag og lék fyrri hálfleikinn en var einn af þremur leikmönnum liðsins sem skipt var af velli áður en síðari hálfleikur hófst.
Rukh Lviv var undir í hálfleik, 0:2, gegn Desna og tapaði að lokum 0:4. Liðið er í tólfta sæti af fjórtán liðum í úkraínsku úrvalsdeildinni en liðið leikur þar í fyrsta sinn eftir að hafa komið á skömmum tíma upp úr áhugamannadeildum landsins.
Arnar Þór Viðarsson, nýr landsliðsþjálfari, velur sinn fyrsta hóp síðar í þessari viku, fyrir leiki Íslands gegn Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM sem fram fara 25., 28. og 31. mars. Lið Ragnars á að leika einn leik í viðbót áður en að því kemur en sá er gegn Dinamo Kiev á útivelli 21. mars, fjórum dögum fyrir leikinn í Þýskalandi.