Guðlaugur Victor fyrirliði við hlið Gerrards

Guðlaugur Victor Pálsson í baráttu við Raheem Sterling í landsleik …
Guðlaugur Victor Pálsson í baráttu við Raheem Sterling í landsleik Íslands og Englands síðasta haust. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa spilað við hlið Stevens Gerrards. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Darmstadt í Þýskalandi, segir frá því í viðtali við Tipsbladet í Danmörku þegar hann var fyrirliði Liverpool með Steven Gerrard sér við hlið.

Guðlaugur Victor er í svokölluðu „drauma-unglingaliði“ AGF frá Árósum sem Tipsbladet hefur valið, ásamt m.a. Jóni Daða Böðvarssyni sem var eitt tímabil í röðum danska félagsins þegar hann var sextán ára gamall.

Þegar Guðlaugur Victor var sextán ára kom hann til AGF frá Fylki. Árið eftir vildi enska félagið Liverpool fá hann í sínar raðir og Guðlaugur Victor segir frá því í viðtalinu hvernig hann hafi valið unglingalið Liverpool fram yfir tækifærið sem honum bauðst á sama tíma til að fara inn í aðalliðshóp AGF.

Guðlaugur Victor var í röðum Liverpool í tvö ár. Hann lék aldrei mótsleik með aðalliðinu en var tekinn með í æfingaferð þess sumarið 2010.

Steven Gerrard er nú knattspyrnustjóri nýkrýndra Skotlandsmeistara Rangers.
Steven Gerrard er nú knattspyrnustjóri nýkrýndra Skotlandsmeistara Rangers. AFP

„Það er upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Að fá að spila með mönnum á borð við Steven Gerrard og Daniel Agger. Það var risastórt á þessum tíma og ég man vel hvernig mér leið,“ segir Guðlaugur Victor og skýrir svo frá því hvernig það atvikaðist að hann var fyrirliði í leik með Liverpool með Steven Gerrard, aðalstjörnu og fyrirliða aðalliðs félagsins, sér við hlið á miðjunni.

„Gerrard kom og lék einn leik með okkur í varaliðinu. Við spiluðum hlið við hlið á miðjunni og ég var fyrirliði varaliðsins á þessum tíma. Ég var gríðarlega taugaóstyrkur fyrir leikinn, fór til Gerrards og spurði hann hvort honum væri sama þótt ég væri fyrirliði.

„Já, auðvitað. Þetta er liðið þitt, það ert þú sem ert fyrirliði hérna,“ svaraði Gerrard og þetta sýnir vel hvers konar persónuleiki hann er og hvílíkur heiðursmaður. Ég kynntist því hversu stórkostlegur hann er, bæði innan og utan vallar. Það var ólýsanleg upplifun, bæði að spila við hliðina á honum, og að vera líka fyrirliði. Þessu er erfitt að lýsa í orðum,“ segir Guðlaugur Victor í viðtalinu sem má sjá hér í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert