Spænski stjórnmálamaðurinn Joan Laporta var í gærkvöldi kjörinn forseti spænska knattspyrnufélagsins Barcelona og hefur hann strax hafist handa við að reyna að fá Lionel Messi til að vera áfram hjá félaginu.
Laporta tekur við af hinum umdeilda Josep Bartomeu sem var handtekinn á dögunum en Laporta þekkir stöðuna mjög vel en hann var forseti félagsins frá 2003 til 2010. Barcelona var afar sigursælt í forsetatíð Laporta og vann spænsku deildina fjórum sinnum, bikarinn einu sinni, Meistaradeildina einu sinni og heimsmeistarakeppni félagsliða einu sinni.
Hans verðugasta verkefni er þó sennilega fram undan, en það er að telja stjörnuna Lionel Messi á að vera áfram hjá félaginu eftir að argentínski framherjinn reyndi að yfirgefa félagið síðasta sumar.
„Að sjá Messi taka þátt í kjörinu um besta leikmann heims og kjósa með syni sínum sýndi mér að hann elskar Barcelona og að við erum öll ein stór fjölskylda,“ sagði Laporte í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins. „Vonandi verður hann áfram, það er það sem við öll viljum.“