Knattspyrnumaðurinn Böðvar Böðvarsson sem hefur leikið með Jagiellonia í Póllandi undanfarin ár er að óbreyttu á leið til sænska félagsins Helsingborg.
Fotbollskanalen segir að samkvæmt sínum heimildum séu allar líkur á að af samningum verði og þá segir Fótbolti.net að viðræður séu langt komnar.
Böðvar er 25 ára gamall vinstri bakvörður sem lék með FH til 2017 og spilaði 73 leiki með Hafnarfjarðarliðinu í úrvalsdeildinni.
Hann gekk til liðs við Jagiellonia snemma árs 2018 og spilaði þar 43 úrvalsdeildarleiki en hann fékk samningi sínum við félagið rift á dögunum. Böðvar hefur spilað fimm A-landsleiki og lék 13 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Helsingborg hefur lengi verið eitt af stærri félögum Svíþjóðar en liðið féll úr úrvalsdeildinni á síðasta ári. Meðal leikmanna þar er færeyski landsliðsmaðurinn Brandur Olsen sem lék með FH-ingum um tíma.