Knattspyrnumaðurinn Brynjólfur Andersen Willumsson er genginn til liðs við norska úrvalsdeildarfélagið Kristiansund.
Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í dag en Brynjólfur kemur til félagsins frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki og skrifar undir þriggja og hálfs árs samning við úrvalsdeildarfélagið.
Hann mun halda út til Noregs í apríl eftir að riðlakeppni EM U21-árs landsliðið sem fram fer í Ungverjalandi lýkur.
Brynjólfur er einungis tvítugur að aldri en félagaskiptin hafa legið í loftinu undanfarna daga.
Hann á að baki 41 leik í efstu deild þar sem hann hefur skorað sjö mörk og þá á hann að baki 22 leiki fyrir yngri landslið Íslands þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.
„Brynjólfur hefur alla burði til þess að verða leikmaður sem stuðningsmenn okkar munu elska,“ sagði Terje Wiik, stjóri Kristiansund.
„Við hlökkum mikið til að sjá hann í dökkbláa búningnum,“ bætti þjálfarinn við en Kristiansund hafnaði í fimmta sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.