Erling Braut Haaland var enn og aftur allt í öllu í liði Dortmund sem tryggði sér sæti í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir 2:2-jafntefli á heimavelli gegn Sevilla í kvöld.
Haaland skoraði tvö mörk í fyrri leik liðanna á Spáni, sem Dortmund vann 3:2, og hann var aftur á ferðinni í kvöld. Skoraði bæði mörk heimamanna, það fyrsta á 35. mínútu. Hann bætti svo við marki á 54. mínútu eftir skrautlega atburðarás.
Fyrst skoraði hann mark sem var dæmt af vegna þess að hann braut af sér í aðdragandanum. Hins vegar var brotið á honum innan teigs nokkru áður og því vítaspyrna dæmd. Norðmaðurinn klikkaði í vítaspyrnunni, Bono í marki Sevilla varði en var aftur á móti farinn af marklínunni og því þurfti að endurtaka spyrnuna. Þá skoraði Haaland loks og fagnaði reyndar með æsingi og uppskar gult spjald fyrir.
Heimamenn fengu svo smá skrekk. Youssef En-Nesyri minnkaði muninn á 68. mínútu úr vítaspyrnu og jafnaði svo metin í leiknum og minnkaði muninn í einvíginu niður í eitt mark í uppbótartímanum. Það dugði þó ekki til og Dortmund tryggði sér sæti í næstu umferð.