Porto er komið í fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir dramatíska viðureign gegn ítalska stórliðinu Juventus í Torino í kvöld. Heimamenn unnu 3:2 í leiknum en eru úr leik á útivallarmörkum skoruðum, samanlagt 4:4.
Porto vann fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum í Portúgal, 2:1, og komst yfir í kvöld með marki Sergio Oliveira úr vítaspyrnu á 19. mínútu. Federico Chiesa jafnaði hins vegar metin fyrir heimamenn í upphafi síðari hálfleiks og virtust gestirnir vera komnir í ansi mikil vandræði þegar Mehdi Taremi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 54., mistök fyrir heimskupör.
Chiesa skoraði svo aftur á 63. mínútu er heimamenn og ítölsku meistararnir virtust líklegir til að fara alla leið en fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma. Því þurfti að grípa til framlengingar og þar dró til tíðinda. Oliviera jafnaði metin fyrir Porto með marki beint úr aukaspyrnu á 115. mínútu. Adrien Rabiot skoraði strax tveimur mínútum síðar fyrir Juventus sem þurfti hins vegar annað mark.
Það kom ekki og er Porto því komið áfram í 8-liða úrslitin eftir ótrúlega dramatík en portúgalska liðið er nú í pottinum ásamt Dortmund sem sló Sevilla úr keppninni fyrr í kvöld.