Ekki er útlit fyrir að knattspyrnumaðurinn Roberto Firmino verði með Liverpool gegn Leipzig í Meistaradeild Evrópu annað kvöld en hann gat ekki æft með liðsfélögum sínum í dag.
Leikurinn fer fram í Búdapest í Ungverjalandi á morgun vegna sóttvarnaráðstafana en um er að ræða síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Liverpool er með 2:0-forystu frá fyrri leiknum.
Firmino hefur verið að glíma við meiðsl á hné og situr væntanlega hjá en samkvæmt Sky Sports ætti hann að vera klár fyrir deildarleikinn gegn Wolves um næstu helgi. Lítið hefur gengið hjá Englandsmeisturunum undanfarið, Liverpool hefur aðeins unnið tvo af síðustu átta leikjum sínum en annar af þeim sigrum kom þó gegn Leipzig í Meistaradeildinni.