Spænska knattspyrnufélagið Barcelona hefur gert munnlegt samkomulag við varnarmanninn David Alaba sem er á förum frá Bayern München í sumar.
Austurríkismaðurinn er 28 ára gamall og hefur verið orðaður við öll stærstu lið Evrópu undanfarnar vikur en samningaviðræður hans við Bayern sigldu í strand í nóvember. Alaba er uppalinn hjá þýsku meisturunum en hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið árið 2010.
Hann staðfesti nýlega að hann mun ekki endurnýja samning sinn við þýsku meistarana en hefur enn ekki sagt hvert hann fer næst. Nú segir spænski miðillinn Mundo Deportivo frá því að Alaba hafi gert samkomulag við spænska stórliðið.
Alls á hann að baki 408 leiki fyrir Bayern í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 32 mörk og lagt upp önnur 49. Hann hefur níu sinnum orðið Þýskalandsmeistari með liðinu, sex sinnum bikarmeistari og tvívegis Evrópumeistari.