Nýtt fyrirkomulag í Meistaradeild Evrópu

Chelsea og Atlético Madrid eru meðal þeirra liða sem mætast …
Chelsea og Atlético Madrid eru meðal þeirra liða sem mætast í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í þessum mánuði. AFP

Nýtt keppnisfyrirkomulag verður væntanlega tekið upp í Meistaradeild Evrópu í karlaflokki í fótbolta eftir þrjú ár, eða frá og með haustinu 2024.

Samtök evrópskra knattspyrnufélaga, ECA, hafa unnið að tillögu sem lögð verður fyrir Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, síðar í þessum mánuði, og samkvæmt BBC er talið að samþykki UEFA sé nánast formsatriði. Með þessu verði hugmyndir um evrópska úrvalsdeild sem slíti öll tengsl við UEFA úr sögunni.

Andrea Agnelli, stjórnarformaður Juventus, er jafnframt stjórnarformaður ECA og haft er eftir honum að endanleg útfærsla á keppnisfyrirkomulaginu ætti að liggja fyrir innan tveggja vikna.

Uppskrift frá frægum markverði

Edwin van der Sar, markvörður Hollendinga um árabil og núverandi framkvæmdastjóri Ajax, er sagður eiga heiðurinn af nýja fyrirkomulaginu sem er mjög ólíkt núverandi riðlakeppni í Meistaradeildinni.

Í dag leika 32 lið í átta riðlum í Meistaradeildinni, að loknum fjórum umferðum í undankeppni. Í staðinn verða liðin 36 sem standa eftir að undankeppninni lokinni. Þeim verður ekki skipt í riðla, heldur munu þau spila tíu leiki hvert fyrir jól og leikjunum verður raðað upp út frá styrkleikaröðun UEFA, þannig að mótherjar hvers liðs dreifist um allan listann.

Liðin safni stigum á þennan hátt og þau efstu komast í útsláttarkeppnina eftir áramótin, væntanlega sextán stigahæstu liðin, en rætt er um að einhverjir umspilsleikir verði háðir um síðustu sætin.

„Við erum að reyna að ná jafnvægi á þann hátt að liðin spili tvo þriðju hluta tímabilsins í deildunum heima fyrir og einn þriðja í Meistaradeildinni. Af þeim sökum teljum við að 20 liða deildir séu of stórar,“ sagði Agnelli.

Enska úrvalsdeildin mun þegar hafa hafnað hugmyndum um að fækka liðum úr 20 í 18 þannig að á Englandi er líklegra að deildabikarnum verði fórnað. 

Spánverjar, Ítalir og Frakkar eru einnig með 20 liða deildir og eiga eftir að taka afstöðu til þess hvort liðum þar verði fækkað til að koma til móts við Meistaradeildina. Þjóðverjar eru hinsvegar með 18 liða deild og þyrftu því engu að breyta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert