Svíar ætla að opna fótboltavellina

Áhorfendapallar á fótboltavöllum um allan heim hafa verið tómir undanfarna …
Áhorfendapallar á fótboltavöllum um allan heim hafa verið tómir undanfarna mánuði en Svíar ætla að hefja sína deild með áhorfendum. AFP

Sænski íþróttamálaráðherrann stefnir að því að áhorfendur verði á leikjum frá og með fyrstu umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta sem hefst 11. apríl.

Ráðherrann, Amanda Lind, staðfesti þetta í viðtali við Göteborgs-Posten í dag en hún sagði að knattspyrnan í landinu væri afar vel skipulögð og tilbúin til að takast á við krefjandi verkefni.

„Heilbrigðisyfirvöld hafa komið fram með tillögur um að hefja tilslakanir í áföngum og lagt sé til að fyrsta skrefið varðandi íþróttirnar verði tekið 11. apríl, ef staðan í landinu versnar ekki. Ég veit að knattspyrnuíþróttin og forsvarsfólk hennar eru vel undirbúin. Það verða sett um mjög nákvæmar reglur um hvernig eigi að standa að stórum viðburðum, hvernig meðhöndla eigi áhorfendur, bæði fyrir og eftir leiki, sem og flutninga til og frá leikvöngum,“ sagði Amanda Lind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert