Þýskt lið fylgist með Hirti

Hjörtur Hermansson skýlir boltanum frá Bukayo Saka í landsleik íslands …
Hjörtur Hermansson skýlir boltanum frá Bukayo Saka í landsleik íslands gegn Englandi á Wembley í vetur. AFP

Þýska efstu deildar félagið Union Berlin fylgist nú með knatt­spyrnumanninum Hirti Hermannssyni sem spilar með Bröndby í Danmörku.

Hjörtur hef­ur ekki átt fast sæti í liði danska úr­vals­deild­ar­fé­lags­ins Brönd­by á leiktíðinni en varnarmaðurinn, sem er 26 ára gamall, gekk til liðs við danska félagið frá PSV í Hollandi sumarið 2016 og er á sínu fimmta tímabili í Danmörku.

Þýski fjölmiðillinn B.Z. Berlin segir nú frá því að Hjörtur sé á óskalista forráðamanna Union Berlin en liðið spilar í efstu deildinni í Þýskalandi og situr í 7. sæti, fjórum stigum á eftir stórliði Dortmund.

Hjörtur verður samningslaus hjá Bröndby í sumar og gæti því fært sig um set á frjálsri sölu. Ástæðan fyrir því að Union Berlin vill bæta við sig varnarmanni er að sögn þýska miðilsins sú að búist er við að varnarmaðurinn Marvin Friedrich fari til Leverkusen í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert