Knattspyrnukonan Svava Rós Guðmundsdóttir er vongóð um að geta snúið aftur til æfinga bráðlega en hún meiddist í fyrsta leik fyrir nýja félagið sitt í Frakklandi.
Svava gekk til liðs við franska liðið Bordeaux í janúar og þreytti frumraun sína með liðinu 23. janúar er hún kom inn á sem varamaður í 7:1-stórsigri á Reims í frönsku 1. deildinni. Hún fór af velli hálftíma síðar eftir að hafa fundið til í kálfanum og hún hefur verið frá síðan.
„Staðan á mér er sú að ég fæ aftur rifu á kálfann í lok janúar, á 94. mínútu í fyrsta leiknum mínum fyrir Bordeaux.
Ég er búin að vera í endurhæfingu síðan, það er búið að ganga erfiðlega og taka lengri tíma en áætlað var. Þetta lítur samt aðeins betur út núna og vonandi get ég farið að æfa aftur með liðinu bráðlega,“ sagði íslenska landsliðskonan í samtali við fótbolti.net.
Svava er 25 ára gömul en hún kom til Frakklands frá Kristianstad í Svíþjóð eftir áramót þar sem hún lék frá árinu 2019. Hún lék með Breiðabliki hér heima áður en hún hélt í atvinnumennsku og á að baki 24 A-landsleiki.