Arnór Ingvi Traustason landsliðsmaður í knattspyrnu er að öllu óbreyttu á leið frá sænsku meisturunum Malmö til bandaríska félagsins New England Revolution.
Greint var frá áhuga Bandaríkjamannanna á Arnóri í janúar og sænski netmiðillinn Fotboll Direkt segir að nú sé aðeins formsatriði að ganga frá sölunni á milli félaganna, og undirskrift Íslendingsins við New England Revolution.
Arnór hefur leikið með Malmö í þrjú ár og á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann er 27 ára gamall og hefur leikið 37 landsleiki fyrir Ísland. Hann lék áður með AEK í Grikklandi, Rapid Vín í Austurríki, Norrköping í Svíþjóð, Sandnes Ulf í Noregi og Keflavík.
New England Revolution leikur í MLS-deildinni þar sem liðið endaði í áttunda sæti Austurdeildar á síðasta ári en komst síðan í fjögurra liða úrslitin um bandaríska meistaratitilinn þar sem það tapaði 1:0 fyrir verðandi meisturum Columbus Crew. Liðið hefur aðsetur í Foxborough í Massachusetts, skammt frá Boston, og leikur þar á Gillette-leikvanginum sem rúmar tæplega 69 þúsund áhorfendur. Þjálfari New England er Bruce Arena sem var landsliðsþjálfari Bandaríkjanna um árabil.
Bandaríska deildin er vanalega leikin frá mars og fram í nóvember/desember. Í ár átti keppni að hefjast 3. apríl en hefur verið seinkað til 17. apríl vegna kórónuveirunnar.