Bayern München er komið í átta liða úrslit í Meistaradeild Evrópu í fótbolta eftir 3:0-heimasigur á KBIIK Kazygurt frá Kasakstan í seinni leik liðanna í dag. Bayern vann fyrri leik liðanna 6:1 og einvígið því samanlagt 9:1.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var í fyrsta skipti í byrjunarliði Bayern og lék allan leikinn. Hún komst nærri því að skora snemma leiks með skemmtilegri hælspyrnu en inn vildi boltinn ekki.
Karólína hefur farið vel af stað með Bayern og skoraði hún í fyrri leiknum, örfáum mínútum eftir að hún kom inn á sem varamaður í sínum fyrsta leik. Karólína gekk á dögunum til liðs við Bayern frá Íslandsmeisturum Breiðabiks.