PSG er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á kostnað Barcelona eftir að liðin gerðu 1:1-jafntefli á heimavelli Parísarliðsins í kvöld. PSG vann fyrri leikinn 4:1 og einvígið 5:2.
Kylian Mbappé gerði út um einvígið með marki úr víti eftir 30 mínútur en sjö mínútum seinna jafnaði Lionel Messi metin með stórglæsilegu skoti af löngu færi. Hann fékk svo gullið tækifæri til að minnka muninn í einvíginu enn frekar en hann brenndi af víti í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Ekkert mark var skorað í seinni hálfleik og er franska liðið því komið áfram í átta liða úrslit, en PSG fór alla leið í úrslitaleikinn á síðustu leiktíð.