Maracana mun bera nafn Pelé

Maracana-leikvangurinn í Ríó.
Maracana-leikvangurinn í Ríó. AFP

Einn frægasti knattspyrnuleikvangur heims mun framvegis bera nafn eins frægasta knattspyrnumanns allra tíma.

Maracana-leikvangurinn í Ríó de Janeiro í Brasilíu, þar sem um 200 þúsund manns sáu úrslitaleik Úrúgvæ og Brasilíu á heimsmeistaramótinu árið 1950, verður nefndur eftir sjálfum Pelé, sem varð heimsmeistari með brasilíska landsliðinu árin 1958, 1962 og 1970 og er af mörgum talinn besti leikmaður allra tíma.

Samþykkt hefur verið í kosningu í borgarráði Ríó að leikvangurinn muni heita Edson Arantes do Nascimento - Rei Pelé leikvangurinn.

Pelé, sem varð áttræður í október á síðasta ári, heitir fullu nafni Edson Arantes do Nacimento og Rei er konungur á portúgölsku.

Pelé er frægasti knattspyrnumaðurinn í sögu Brasilíu.
Pelé er frægasti knattspyrnumaðurinn í sögu Brasilíu. AFP

Ríkisstjóri Ríó de Janeiro þarf að leggja blessun sína yfir nafnaskiptin áður en þau verða opinber.

Á Maracana var einnig úrslitaleikur heimsmeistaramótsins 2014 og þar var opnunarhátíð Ólympíuleikanna árið 2016. þar skoraði jafnframt Pelé sitt þúsundasta mark á ferlinum árið 1969, í leik með Santos gegn Vasco da Gama.

Maracana hefur frá árinu 1966 borið nafnið Mário Filho, til heiðurs frægum brasilískum blaðamanni og rithöfundi, en gamla nafnið hefur ætíð verið notað. Félagsliðin Flamengo og Fluminense hafa hann bæði sem heimavöll í brasilíska fótboltanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert