Íslendingaliðið Midtjylland er komið í undanúrslit danska bikarsins í fótbolta eftir 3:0-heimasigur á öðru Íslendingaliði OB í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum í dag. Midtjylland vann fyrri leikinn 2:1 og einvígið því samtals 5:1.
Mikael Anderson var í byrjunarliði Midtjylland og lék allan leikinn. Aron Elís Þrándarson lék fyrstu 62 mínúturnar með OB og Sveinn Aron Guðjohnsen lék seinni hálfleikinn.
Midtjylland, sem er ríkjandi danskur meistari, er í hörðum slag um að verja titil sinn en liðið er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 39 stig. OB er í sjötta sæti með 25 stig.