Sara Björk Gunnarsdóttir og samherjar hennar í Lyon tryggðu sér í dag sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta með því að sigra Brøndby 3:1 í Kaupmannahöfn.
Evrópumeistarar Lyon unnu fyrri leikinn 2:0 en Brøndby kom sér inn í baráttuna á ný þegar Nanna Christiansen skoraði á 11. mínútu.
Nikita Parris og Melvine Malard komu hins vegar Lyon í 2:1 með mörkum á 32. og 42. mínútu og miðvörðurinn reyndi Wendie Renard skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á 50. mínútu. Þar við sat og Lyon vann einvígið 5:1.
Sara Björk var í byrjunarliði Lyon í dag en var skipt af velli eftir klukkutíma leik.
Fyrr í dag gerðu Atlético Madrid og Chelsea jafntefli, 1:1, og Chelsea vann þar með einvígi liðanna 3:1. Hin norska Maren Mjelde kom Chelsea yfir seint í leiknum en Emelyne Laurent jafnaði fyrir Atlético í uppbótartíma.
Þýsku meistararnir Wolfsburg, sem Sara lék áður með, sigruðu Lillestrøm frá Noregi 2:0 á útivelli og vann einvígið þar með 4:0. Pia-Sophie Wolter og Ingrid Syrstad Engen skoruðu mörk Wolfsburg.
Þrjú Íslendingalið eru á ferð í keppninni síðar í dag. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og samherjar í Bayern München mæta Kazygurt frá Kasakstan en Karólína skoraði í fyrri leik liðanna sem Bayern vann 6:1. Þá leikur St. Pölten frá Austurríki, lið Kristrúnar Rutar Antonsdóttur, við Rosengård frá Svíþjóð, lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, en liðin gerðu 2:2 jafntefli í fyrri leiknum í Malmö.