Sóknarmennirnir Romelu Lukaku og Zlatan Ibrahimovic hafa verið sektaðir fyrir rifrildið sem þeir áttu er AC Mílan og Inter Mílanó áttust við í ítalska bikarnum í fótbolta 26. janúar síðastliðinn.
Lukaku og Ibrahimovic rifust heiftarlega, en hvorugur þeirra er sakaður um kynþáttaníð. Fá þeir sektina fyrir óíþróttamannslega hegðun, en Lukaku leikur með Inter Mílanó og Ibrahimovic með AC Milan.
Samherjar Lukaku þurftu að halda aftur af belgíska framherjanum á meðan rifrildið átti sér stað, en heyra mátti á upptökum frá atvikinu að Ibrahimovic sagði niðrandi orð um móður Belgans. Fengu þeir báðir gult spjald fyrir rifrildið.