Norski knattspyrnumaðurinn Erling Braut Haaland stal senunni er hann skoraði bæði mörk Dortmund í 2:2-jafntefli gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu í gær. Jafnteflið nægði Dortmund til að komast áfram eftir 3:2-sigur í fyrri leiknum.
Annað mark framherjans kom úr vítaspyrnu eftir langan aðdraganda. Haaland skoraði, markið var dæmt af vegna brots, en stuttu á undan var brotið á Haaland og því víti dæmt eftir skoðun í VAR. Bono í marki Sevilla varði vítið frá þeim norska, en Haaland fékk annað tækifæri þar sem Bono var of fljótur af marklínunni. Haaland nýtti sér það og skoraði loks úr seinna vítinu.
Bono öskraði á Haaland eftir fyrra vítið og sá norski hefndi sín eftir seinna vítið. Norðmaðurinn viðurkennir að hann veit ekki hvað hann sagði við markvörðinn.
„Hann hló að mér þegar ég klúðraði en hann hló ekki lengur þegar ég skoraði,“ sagði Haaland við Sky eftir leik. „Ég veit ekkert hvað ég öskraði á hann. Ég sagði það sama og hann sagði við mig en ég veit ekki hvað það þýðir,“ bætti hann við.