Englandsmeistarar Liverpool eru það lið sem allir vilja mæta í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu að mati Andy Goldstein, fjölmiðlamanns hjá talkSport.
Liverpool er komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir sannfærandi sigur gegn RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Gengi Liverpool á tímabilinu hefur hins vegar ekki verið gott og liðið situr sem stendur í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 43 stig, 7 stigum frá Meistaradeildarsæti.
„Ég er ekki að segja þetta til þess að fá fólk upp á tærnar,“ sagði Goldstein í útvarpsþætti sínum á talkSport.
„Liverpool hefur ekki spilað vel eftir áramót og liðið er í miklum meiðslavandræðum. Þeir eru það lið sem allir vilja mæta á þessum tímapunkti í keppninni.
Ef þú vilt komast í undanúrslitin þá er Liverpool liðið sem þú vilt mæta. Ef þú horfir á liðin sem eru komin áfram, PSG, Dortmund, Porto.
Ég held að Liverpool sé með veikasta leikmannahópinn á nákvæmlega þessum tímapunkti. Real Madrid, Bayern München, Manchester City og Chelsea fara líklegast öll áfram líka.
Liverpool er liðið sem þú vilt dragast gegn,“ bætti Goldstein við.