Einn sá besti í heimi í sinni stöðu

Fabinho lék vel í sigrinum gegn RB Leipzig í gærkvöldi.
Fabinho lék vel í sigrinum gegn RB Leipzig í gærkvöldi. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ánægður með frammistöðu liðsins í 2:0 sigri þess gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi. Sérstaklega ánægður var hann með Fabinho, sem lék loks í sinni bestu stöðu á ný.

Fabinho hefur þurft að hlaupa í skarðið sem miðvörður stærstan hluta tímabilsins vegna mikilla skakkafalla í stöðunni hjá Liverpool en byrjaði á miðjunni í gærkvöldi, í stöðu varnartengiliðis, í fyrsta sinn síðan í lok nóvember á síðasta ári.

„Við þurfum að finna út úr því hvaða lausnir eru í boði í næstu leikjum, en „sexan“ er staðan hans. Við vonuðumst eftir því að halda honum þar á tímabilinu.

Hann er einn sá besti í heimi í þessari stöðu, það er alveg ljóst. Ekki bara þegar kemur að því að verjast heldur einnig þegar kemur að því að skapa. Hann er okkur afskaplega mikilvægur,“ sagði Klopp um Fabinho eftir leikinn í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert