Fín staða hjá Tottenham og Arsenal

Harry Kane fagnar fyrra marki sínu gegn Dinamo Zagreb í …
Harry Kane fagnar fyrra marki sínu gegn Dinamo Zagreb í kvöld. AFP

Lundúnaliðin Tottenham og Arsenal standa vel að vígi í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir góða sigra í fyrri viðureignum sínum í kvöld.

Tottenham tók á móti Dinamo Zagreb frá Króatíu í London og sigraði 2:0. Harry Kane skoraði bæði mörkin, á 25. og 70. mínútu leiksins.

Arsenal heimsótti Olympiacos til Grikklands, og sigraði þar 3:1. Martin Ødegaard kom Arsenal yfir á 34. mínútu en Youssef El Arabi jafnaði fyrir Grikkina á 58. mínútu eftir slæm mistök hjá Dani Ceballos. En Gabriel og Mohamed Elneny skoruðu fyrir Arsenal á 79. og 85. mínútu og því eru góðar líkur á að Arsenal nái að koma fram hefndum eftir að hafa verið slegið út af Olympiacos fyrir ári.

Björn Bergmann Sigurðarson í baráttu við varnarmenn Granada í leiknum …
Björn Bergmann Sigurðarson í baráttu við varnarmenn Granada í leiknum á Spáni í kvöld. AFP

Björn Bergmann Sigurðarson lék fyrstu 74 mínúturnar með Molde sem sótti Granada heim til Spánar og tapaði 2:0. Jorge Molina og Roberto Soldado skoruðu mörkin og það verður erfitt fyrir Molde að snúa þessu við á „heimavelli“ í Búdapest í seinni leiknum. Þá var Martin Ellingsen í liði Molde rekinn af velli þegar 20 mínútur voru eftir og  staðan var 1:0.

Roma vann Shakhtar Donetsk frá Úkraínu, 3:0, þar sem Lorenzo Pellegrini, Stephan El Shaarawy og Gianluca Mancini skoruðu mörkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert