Lundúnaliðin Tottenham og Arsenal standa vel að vígi í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir góða sigra í fyrri viðureignum sínum í kvöld.
Tottenham tók á móti Dinamo Zagreb frá Króatíu í London og sigraði 2:0. Harry Kane skoraði bæði mörkin, á 25. og 70. mínútu leiksins.
Arsenal heimsótti Olympiacos til Grikklands, og sigraði þar 3:1. Martin Ødegaard kom Arsenal yfir á 34. mínútu en Youssef El Arabi jafnaði fyrir Grikkina á 58. mínútu eftir slæm mistök hjá Dani Ceballos. En Gabriel og Mohamed Elneny skoruðu fyrir Arsenal á 79. og 85. mínútu og því eru góðar líkur á að Arsenal nái að koma fram hefndum eftir að hafa verið slegið út af Olympiacos fyrir ári.
Björn Bergmann Sigurðarson lék fyrstu 74 mínúturnar með Molde sem sótti Granada heim til Spánar og tapaði 2:0. Jorge Molina og Roberto Soldado skoruðu mörkin og það verður erfitt fyrir Molde að snúa þessu við á „heimavelli“ í Búdapest í seinni leiknum. Þá var Martin Ellingsen í liði Molde rekinn af velli þegar 20 mínútur voru eftir og staðan var 1:0.
Roma vann Shakhtar Donetsk frá Úkraínu, 3:0, þar sem Lorenzo Pellegrini, Stephan El Shaarawy og Gianluca Mancini skoruðu mörkin.