Böðvar Böðvarsson er orðinn leikmaður sænska knattspyrnufélagsins Helsingborg sem kynnti hann til leiks hjá sér fyrir stundu.
Fyrr í vikunni var skýrt frá því í sænskum og íslenskum fjölmiðlum að Böðvar væri væntanlega á leið til félagsins.
Böðvar hefur leikið með Jagiellonia í pólsku úrvalsdeildinni undanfarin þrjú ár en fékk sig lausan undan samningi þar á dögunum. Fram að því lék hann með FH. Böðvar er 25 ára gamall vinstri bakvörður og á fimm A-landsleiki að baki.
Helsingborg leikur í sænsku B-deildinni í ár en liðið féll úr úrvalsdeildinni á síðasta ári. Félagið er þó eitt af þeim sigursælli í Svíþjóð og varð sænskur meistari í sjöunda sinn árið 2011 en þá lék Guðjón Pétur Lýðsson með liðinu á lokaspretti tímabilsins. Helsingborg varð líka bikarmeistari sama ár og vann þá bikarinn í fimmta skipti og annað árið í röð. Liðið var fastagestur í Evrópumótum á árunum 1996 til 2012 og komst í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar árið 2008.
Tíu Íslendingar hafa áður leikið með félaginu en Albert Guðmundsson úr Val var fyrstur í röðum þess árið 1983. Síðan hafa leikið með því þeir Hilmar Björnsson og Jakob Már Jónharðsson árið 1998, Ólafur Ingi Skúlason 2007-2009, Guðjón Pétur Lýðsson 2011, Alfreð Finnbogason 2012, Arnór Smárason 2013-2015, Guðlaugur Victor Pálsson 2014-2015, Andri Rúnar Bjarnason 2018-2019 og Daníel Hafsteinsson 2019.