Manchester United og AC Milan skildu jöfn í fyrri leik sínum í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld, 1:1, en fjórum leikjum var að ljúka í keppninni.
Gestirnir frá Mílanóborg voru sprækir framan af og settu boltann tvisvar í mark United í fyrri hálfleik án þess að það taldi. Rafael Leao skoraði með ágætu skoti strax á fimmtu mínútu en var rangstæður og Franck Kessié kom knettinum einnig í markið með þrumuskoti nokkrum mínútum síðar en hann handlék knöttinn í aðdragandanum.
Staðan var því markalaus í hálfleik en heimamenn brutu ísinn fljótlega eftir hlé. Táningurinn Amad Diallo gerði það, nýkominn inn á sem varamaður, er hann skallaði knöttinn í netið eftir laglegu stungusendingu frá Bruno Fernandes.
Allt stefndi í að United myndi taka sér gott veganesti til Ítalíu næsta fimmtudag þegar liðin mætast í síðari viðureigninni en í uppbótartíma jafnaði AC Milan metin. Rade Krunic tók hornspyrnu og danski varnarmaðurinn Simon Kjær stangaði knöttinn í netið.
Þrír aðrir leikir fóru fram á sama tíma. Ajax vann 3:0-sigur á Young Boys í Hollandi, Villarreal vann 2:0-útisigur gegn Dynamo Kiev í Úkraínu og Slavia Prag og Rangers skildu jöfn í Tékklandi, 1:1.