Snúa þrjár kempur aftur gegn Íslandi?

Jerome Boateng, Mats Hummels og Thomas Müller gætu allir snúið …
Jerome Boateng, Mats Hummels og Thomas Müller gætu allir snúið aftur í þýska landsliðshópinn á næstunni. AFP

Þremenningarnir Thomas Müller, Mats Hummels og Jerome Boateng gætu allir snúið aftur í þýska landsliðshópinn þegar liðið mætir Íslandi í Duisburg í undankeppni HM 2022 síðar í mánuðinum.

Joachim Löw, sem mun hætta með þýska landsliðið að loknu EM í sumar, tilkynnti það eftir að þýska landsliðið stóð sig afleitlega á HM í Rússlandi árið 2018 að Müller, Hummels og Boateng yrðu aldrei valdir aftur í landsliðshópinn á meðan hann væri við stjórnvölinn.

Þremenningarnir hafa enda ekki spilað landsleik fyrir þjóð sína síðan á HM fyrir tæpum þremur árum. Nú hefur Löw hins vegar opnað á möguleikann að þeir snúi aftur með það fyrir augum að ná sem bestum árangri á EM.

Í viðtali við þýska íþróttablaðið Kicker í síðustu viku sagði Löw frá því að hann væri opinn fyrir því að velja þá aftur og samkvæmt blaðinu er líklegt að Müller og Hummels verði valdir í næsta landsliðshóp, þar sem liðið mætir meðal annars Íslandi.

Boateng er ekki jafn ofarlega í goggunarröðinni en samkvæmt Kicker kæmi hann vel til greina ef meiðsli og önnur skakkaföll í miðvarðarstöðunni gera vart við sig í hópnum.

Allir þrír urðu heimsmeistarar með þýska landsliðinu á HM 2014 Í Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert