Vinstri bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson er búinn að semja við sænska knattspyrnuliðið Helsingborg um að leika með því út tímabilið 2021. Hann fékk samningi sínum við pólska úrvalsdeildarliðið Jagiellonia Bialystok rift á dögunum og kom möguleikinn á að ganga til liðs við Helsingborg fljótlega upp eftir það.
Ekki er liðin vika frá því að Böðvar varð laus allra mála eftir riftun samningsins í Póllandi og var aðdragandinn að félagaskiptum hans til Svíþjóðar því stuttur.
„Ég var búinn að vera í viðræðum lengi um að rifta samningi mínum hjá Jagiellonia. Það tók lengri tíma en vonir höfðu staðið til. Þá var bara Skandinavíuglugginn opinn. Fljótlega eftir að ég rifti þá kom þetta upp á borðið, að Helsingborg hefði áhuga. Nú er ég búinn að skrifa undir og er sáttur við það,“ sagði Böðvar í samtali við mbl.is eftir að tilkynnt var um félagaskiptin.
Aðspurður hvort fleiri lið hafi komið til greina sagði hann:
„Í janúar var ég með einhver tilboð en ekkert sem hvorki Jagiellonia né ég samþykkti. Þetta var svolítið ferli í janúar og eftir að glugginn lokaði þar var lítið í boði utan Skandinavíu fram að sumarglugganum þannig að það er gott að komast aðeins nær heimilinu.“
Helsingborg leikur í B-deildinni á þessu tímabili eftir að hafa fallið úr úrvalsdeildinni í fyrra.
„Auðvitað hefði maður viljað fara í efstu deild, það er engin spurning. En úr því sem komið var, maður er náttúrlega ekki búinn að spila síðan í desember og búinn að vera í varaliðinu eftir að hafa komið til baka eftir frí og búinn að glíma við mikil meiðsli, þá lít ég á þetta sem tækifæri til að koma mér persónulega í gang. Svo þekki ég fyrir Brand Olsen þarna,“ sagði Böðvar.
Hann bætti því við að Helsingborg stefndi rakleitt aftur upp í deild þeirra bestu. „Já, algjörlega. Ég talaði við Brand og hann talaði mjög vel um klúbbinn. Það er gott að hafa andlit sem maður þekkir þegar maður kemur, þannig að mér líst mjög vel á þetta.“
Böðvar sagðist ekki endilega búast við því að þessi félagaskipti hjálpi honum að komast í íslenska landsliðið að nýju, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, en að það sé þó ávallt markmið hans að komast þangað aftur. Böðvar á að baki fimm A-landsleiki og kom sá síðasti í vináttuleik gegn Svíþjóð í janúar 2019.
„Auðvitað er landsliðið markmiðið mitt en það hefur kannski lítið verið um það, með okkar leikmannahóp, að það séu valdir leikmenn úr næstefstu deild í Skandinavíu. Eins og staðan er núna sé ég kannski ekkert mikið fram á það, en auðvitað er það markmið mitt í framtíðinni að koma mér þangað,“ sagði Böðvar Böðvarsson að lokum í samtali við mbl.is.