Jón Dagur Þorsteinsson og samherjar hans í AGF frá Árósum eru komnir í undanúrslit dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu þrátt fyrir óvæntan ósigur í kvöld.
Þeir sóttu heim C-deildarliðið B 93 til Østerbro í Kaupmannahöfn en AGF hafði unnið fyrri leik liðanna í átta liða úrslitunum á sínum heimavelli, 3:1. B 93 er í baráttu um sæti í B-deildinni á meðan AGF fylgir Brøndby og Midtjylland eftir í baráttunni um danska meistaratitilinn. Það var samt C-deildarliðið sem vann leikinn 2:1 en AGF vann einvígið samanlagt 4:3. Jón Dagur var að vanda í byrjunarliði AGF og lék fyrstu 60 mínúturnar.
Þar með eru það AGF, Midtjylland, Randers og SønderjyskE sem eru í undanúrslitum bikarkeppninnar.