Dregið hefur verið í undankeppni EM 2022 hjá U19-ára landsliði kvenna. Ísland dróst í riðil með Serbíu, Svíþjóð og Frakklandi.
Fyrirkomulagi keppninnar hefur verið breytt og er leikið með sama fyrirkomulagi og í Þjóðadeild UEFA. Tvær deildir eru í keppninni og er Ísland í A-deild.
Undankeppnin er eins og áður í tveimur hlutum, en það lið sem endar í neðsta sæti síns riðils í A-deild fellur niður í B-deild fyrir næsta hluta undankeppninnar. Þau sex lið sem vinna sína riðla í B-deild komast upp í stað þeirra ásamt því liði í þeirri deild sem er með bestan árangur í öðru sæti.
Riðlarnir verða leiknir dagana 14. - 21. september eða 19. - 26. október og má eiga von á tilkynningu á næstunni um hvar riðill Íslands fer fram.
Þær sjö þjóðir sem vinna sína riðla í A-deild í öðrum hluta undankeppninnar vinna sér inn sæti í lokakeppni EM 2022, en hún verður haldin í Tékklandi 27. júní - 9. júlí á næsta ári.