Fyrrverandi leikmaður Liverpool fékk hjartaáfall

Mark González (t.h.) í leik með CSKA Moskvu.
Mark González (t.h.) í leik með CSKA Moskvu. Ljósmynd/Ekaterina Lokteva

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Mark González, sem lék um skeið með enska liðinu Liverpool, fékk hjartaáfall í vikunni. Hann dvelur nú á spítala í heimalandi sínu Síle þar sem hann jafnar sig.

Maura Rivera, eiginkona González, sem er 36 ára gamall, greindi frá þessu á Instagram.

„Ástin í lífi mínu, sálufélagi minn, mikið hræddirðu mig. Síðustu nætur hafa verið hræðilegar. Dagar uppfullir af óvissu, þetta hefur verið mjög ógnvekjandi,“ skrifaði Rivera á Instagram.

Þar greindi hún einnig frá því að González væri orðinn ögn betri. „Ég skrifa þetta þar sem þú ert enn hér með okkur og hefur það aðeins betra. Þar sem þú ert hérna enn erum við á margan hátt enn þakklátari fyrir hvert augnablik sem við eigum saman, fjölskylduna og umfram allt lífið sjálft.

Það er ótrúlegt hvernig allt getur breyst á einu augnabliki. Lífið getur komið okkur á óvart og lagt fyrir okkur próf á meðan við erum ennþá hrædd, en með trú, styrk og von getum við sigrast á öllum slæmu augnablikunum. Ég vil að þú verðir með mér að eilífu Mark,“ skrifaði hún einnig.

González lék 25 leiki og skoraði tvö mörk með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2006/2007. Hann spilaði síðar með Real Betis og CSKA Moskvu og vann Ameríkubikarinn með landsliði Síle árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert