Knattspyrnukonan Alexandra Jóhannsdóttir var í byrjunarliði Eintracht Frankfurt í fyrsta sinn í þýsku efstu deildinni er liðið gerði 1:1-jafntefli gegn Meppen í kvöld.
Alexandra gekk til liðs við Frankfurt frá Breiðabliki í janúar en þá var hlé á deildarkeppninni þar í landi. Síðan þá hefur liðið spilað tvo leiki, Alexandra kom inn sem varamaður í 2:0-tapi gegn Hoffenheim í síðustu viku. Hún var svo í byrjunarliðinu í kvöld en tekin af velli í hálfleik.
Eintracht Frankfurt er í sjötta sæti þýsku 1. deildarinnar með 18 stig en liðið hefur sjö sinnum orðið Þýskalandsmeistari og níu sinnum bikarmeistari. Þá hefur liðið fjórum sinnum orðið Evrópumeistari en það eru þrettán ár síðan það varð síðast Þýskalandsmeistari.