Ståle Solbakken, nýr landsliðsþjálfari Norðmanna í knattspyrnu, hefur skipað hinn unga Martin Ödegaard nýjan fyrirliða landsliðsins.
Ödegaard, sem er 22 ára gamall, hefur verið samningsbundinn Real Madrid frá 16 ára aldri en er nú í láni hjá Arsenal og gæti leikið þar áfram. Hann hefur leikið 25 A-landsleiki fyrir Noreg og spilaði þann fyrsta aðeins 15 ára gamall.
Þá sló hann met Sigurðar Jónssonar frá árinu 1983 og varð yngsti leikmaðurinn í sögunni til að spila leik í undankeppni EM.
„Sumir þurfa að venjast því að vera fyrirliðar, hjá öðrum er það aukaálag sem getur verið byrði. Martin er hins vegar algjörlega tilbúinn. Hann er liðsmaður, innan sem utan vallar, og mikill karakter,“ sagði Solbakken við norska fjölmiðla.
Norðmenn mæta Gíbraltar, Tyrklandi og Svartfjallalandi í þremur fyrstu leikjum sínum í undankeppni EM dagana 24., 27. og 30. mars.