Sænska knattspyrnufélagið Häcken frá Gautaborg staðfesti í dag að Diljá Ýr Zomers væri komin til félagsins frá Val og hefði verið samið við hana til tveggja ára.
Eins og fram kom í gær voru félagaskipti Diljár frágengin en félögin áttu eftir að ganga frá málum sín á milli, hvort Diljá væri laus allra mála frá Val eða yrði lánuð til Häcken.
Diljá, sem er 19 ára, lék áður með FH og Stjörnunni og á 50 leiki að baki í íslensku úrvalsdeildinni.
Á heimasíðu Häcken kemur fram að hún hafi til að byrja með flutt til Gautaborgar með unnusta sínum Valgeiri Lunddal Friðrikssyni sem kom til karlaliðs félagsins frá Val í vetur.
„Ég ætlaði ekki að flytja hingað til að byrja með en við vildum vera saman þannig að ég fór að líta í kringum mig í Gautaborg. Síðan fékk ég þetta tækifæri og það var ekki hægt að hafna því,“ segir Diljá á heimasíðunni.
Þjálfari Häcken, Mats Gren, segir að hann hafi fyrst talið að Diljá væri bara í heimsókn hjá Valgeiri. „En svo kom í ljós að hún ætlaði að vera hérna, og í framhaldi af því stóð hún sig mjög vel á æfingum, þannig að þetta var góð lausn fyrir báða aðila. Það er gott að hafa þetta í höfn og hún hefur sýnt meira og meira eftir því sem hún hefur verið á fleiri æfingum hjá okkur. Hún hefur mest leikið sem kantmaður á Íslandi en getur leikið margar stöður, líka sem sóknarbakvörður eða fremst á miðjunni og jafnvel í framlínunni,“ segir Mats Gren.
Häcken leikur í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í ár en félagið var í D-deild á síðasta ári. Það fékk hins vegar keppnisleyfi sænsku meistaranna Kopparbergs/Gautaborg sem hættu starfsemi í árslok 2020 og síðan mestan hluta leikmannahópsins í kaupbæti.