Zinedine Zidane, þjálfari Real Madríd á Spáni, vildi lítið ræða knattspyrnustjörnuna Cristiano Ronaldo þegar blaðamenn inntu hann eftir svörum í dag.
Ronaldo spilar í dag fyrir ítalska stórliðið Juventus sem féll óvænt úr keppni í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Porto á þriðjudaginn. Portúgalinn gekk til liðs við ítalska félagið frá Real Madríd fyrir tæpum þremur árum og er ekki búist við að hann verði áfram í Torino eftir tímabilið.
„Hann skráði sig í sögubækurnar hérna, hann er frábær. Núna er hann hins vegar leikmaður Juventus og ég get ekki rætt um hvað fjölmiðlar skrifa,“ sagði Zidane á blaðamannafundi sínum en orðrómur er á kreiki þess efnis að Portúgalinn gæti snúið aftur til spænska stórliðsins.
Ronaldo er orðinn 36 ára gamall en hann gekk til liðs við Real Madríd á sínum tíma frá Manchester United, sumarið 2009. Hann skoraði 450 mörk í 438 leikjum og varð Evrópumeistari fjórum sinnum með liðinu.