Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu var afskrifuð af þjálfara hérlendis eftir að hún eignaðist son árið 2018 en hann taldi hana ekki geta spilað í hæsta gæðaflokki eftir barnsburð.
Dagný hefur heldur betur afsannað þá fullyrðingu, enda spilar hún í dag með enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham. Dagný lék með Selfossi á síðustu leiktíð en þar á undan lék hún með Portland Thorns í Bandaríkjunum. Hún er sem stendur eina spilandi atvinnukonan í ensku úrvalsdeildinni sem er móðir en kollegi hennar hjá Tottenham, Ashleigh Neville, varð móðir í síðasta mánuði.
„Sumir á Íslandi héldu að ég væri búin að vera, þegar ég varð ólétt,“ sagði Dagný í viðtali við The Telegraph. „Ég spurði hvort þau héldu að ég yrði ekki nógu góð aftur bara af því að ég væri að eignast barn? Það er fáránlegt. Bíðið bara og sjáið.“
Dagný er á meðal leikjahæstu landsliðskvenna Íslands frá upphafi en hún hefur leikið 90 A-landsleiki og skorað í þeim 29 mörk. Hún segir það sorglegt að ekki fleiri atvinnukonur í knattspyrnu sé mæður. „Að eignast barn er blessun, að verða móðir er það besta sem gat komið fyrir mig. Ég er líka orðin betri leikmaður, og betri liðsfélagi,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir í viðtali við The Telegraph.