Axel Óskar skoraði í fyrsta leik

Axel Óskar Andrésson fer afar vel af stað með Ríga.
Axel Óskar Andrésson fer afar vel af stað með Ríga. Ljósmynd/Riga FC

Knattspyrnumaðurinn Axel Óskar Andrésson skoraði í fyrsta leik sínum fyrir lettnesku meistarana í Ríga í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar þar í landi. Axel Óskar kom liði sínu á bragðið í góðum 3:0 útisigri gegn Ventspils.

Mark hans kom á 16. mínútu og var staðan 1:0 í hálfleik. Eftir tæplega klukkutíma leik tvöfaldaði svartfellski framherjinn Stefan Milosevic forystu Ríga. Undir lokin skoraði Armeninn Edgar Babayan svo þriðja markið og þar við sat.

Axel Óskar lék allan leikinn í hjarta varnarinnar og er óhætt að tala um algera draumabyrjun hans hjá Ríga þar sem liðið hélt marki sínu hreinu og hann skoraði.

Hann gekk til liðs við Ríga í byrjun árs eftir tvö tímabil með Víkingi frá Stafangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert