Sveindís með tvennu í öruggum sigri

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í dag. Eggert Jóhannesson

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í öruggum 4:0 sigri Kristianstad gegn Alingsås í riðli 2 í sænsku bikarkeppninni í knattspyrnu í dag.

Sveindís, sem gekk til liðs við Kristianstad á láni frá Wolfsburg í byrjun árs, kom liðinu á bragðið á 17. mínútu leiksins. Skömmu síðar skoraði  Alingsås sjálfsmark og staðan 2:0 í hálfleik.

Mia Carlsson kom Kristianstad í 3:0 eftir rúmlega klukkutíma leik og Sveindís kórónaði svo frábæran leik sinn með því að skora fjórða og síðasta markið á 78. mínútu.

Þetta var fyrsti keppnisleikur Sveindísar fyrir Kristianstad, sem Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar, og því óhætt að segja að hún fari vel af stað með sínu nýja liði.

Um var að ræða fyrsta leik Kristianstad í sænsku bikarkeppninni.  Í riðli tvö eru einnig Rosengård og Vittsjö, sem mætast á morgun. Með liði Rosengård leikur Glódís Perla Viggósdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert