Karim Benzema reyndist hetja Spánarmeistara Real Madríd er hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:1-sigri á Elche í 1. deildinni í dag.
Meistararnir byrjuðu daginn átta stigum á eftir nágrönnum sínum og toppliði Atlético Madríd og þurftu því nauðsynlega á sigri að halda. Það var því skellur þegar Dani Calvo skallaði knöttinn í netið og kom gestunum í forystu á 61. mínútu.
Benzema jafnaði metin rúmum tíu mínútum síðar eftir fyrirgjöf Luka Modric og Frakkinn skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma eftir þríhyrningsspil með Casemiro. Real er því í öðru sæti með 57 stig, fimm stigum á eftir Atlético sem á einnig leik til góða. Barcelona á sömuleiðis leik til góða á Real og er stigi neðar í 3. sætinu.