Eins og oft áður stal Cristiano Ronaldo senunni fyrir Juventus í 3:1-útisigrinum á Cagliari í ítölsku A-deildinni í fótbolta í kvöld.
Portúgalski sóknarmaðurinn skoraði öll þrjú mörk Juventus, eitt með skalla, eitt með vinstri fæti og eitt með hægri fæti.
Það fyrsta kom á 10. mínútu með skalla eftir horn, annað markið á 25. mínútu úr víti með hægri fæti og þriðja með föstu vinstrifótarskoti á 32. mínútu.
Giovanni Simeone lagaði stöðuna fyrir Cagliari á 61. mínútu en nær komust heimamenn ekki.
Juventus er í þriðja sæti deildarinnar með 55 stig, tíu stigum á eftir Inter Mílanó sem er í toppsætinu. Cagliari er í 17. sæti með 22 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.